Forsetalausar entrecote-sneiðar á grillið

Ég nennti ómögulega að horfa á forsetakappræðurnar í sjónvarpinu og til að hafa eitthvað að dunda mér við sem fjærst sjónvarpinu á meðan þær stóðu yfir ákvað ég að grilla. Þegar ég var í Krónunni áðan rak ég einmitt augun í álitlegar entrecote-sneiðar á tilboði.

Auðvitað var bara hægt að fá tvær í bakka og ég ein í mat en ég stóðst þær samt ekki og valdi þessar fallega fitusprengdu sneiðar. Þær voru svosem ekkert ókeypis. En maður verður nú að láta eitthvað eftir sér. Svona kjöt finnst mér alltaf best að elda á eins einfaldan hátt og hægt er svo aðaleldamennskan (en samt mjög einföld) var meðlætið.

Mér finnst yfirleitt miklu betra að hafa kryddsmjör eða einhverja góða vinaigrettu með svona grillkjöti en sósu svo ég byrjaði á að gera smjörið. Reyndar ætlaði ég að hafa sólþurrkaða tómata sem ég hélt ég ætti en það reyndist rangt; aftur á móti fann ég óopnaða krukku af peppadew síðan guð má vita hvenær og ákvað að það gæti vel komið í staðinn. Það reyndist góð hugmynd. Ég veiddi upp nokkur peppadew og fann tvær litlar rósmaríngreinar og tvo hvítlauksgeira.

Saxaði þetta allt smátt og blandaði saman við slatta af linu smjöri (tók bara það lina smjör sem ég átti, vigtaði það ekki en giska á svona 75 grömm) og kryddaði með nýmöluðum svörtum pipar og Maldon-salti.

Setti smjörið í (stutta) lengju á bökunarpappír og rúllaði honum þétt utan um – notaði semsagt pappírinn til að móta smjörið í sléta lengju. Vafði upp á endana, braut þá inn undir lengjuna og setti hana í frysti í svona hálftíma af því að ég var sein fyrir, annars hefði ég sett hana í kæli í einhverja klukkutíma. – Þetta smjör geymist í allavega viku í ísskápnum og svo má frysta það.

Svo skar ég tvær kartöflur í 2-3 mm þykkar sneiðar (notaði ekki endana), hitaði dálitla olíu á lítilli, þykkri steypujárnspönnu, raðaði kartöflusneiðunum á hana, kryddaði með pipar, salti og timjani, lagði bökunarpappírsbút ofan á kartöflurnar og lok þar ofan á, lækkaði hitann eins og hægt var og steikti í 12-14 mínútur.

Ég var búin að hita grillið og um leið og ég kveikti á því penslaði ég kjötsneiðarnar með ólífuolíu og stráði pipar, salti og svolitlu söxuðu rósmaríni á báðar hliðar. Annað finnst mér ekki þurfa á svona kjöt og algjör óþarfi að vera að marínera það, til dæmis. Lét það bara standa svona rétt meðan grillið hitnaði. Svo setti ég sneiðarnar á vel heitt grillið og grillaði í 4-5 mínútur á hvorri hlið. Sneri þeim um fjórðung úr hring eftir 2-3 mínútur á hvorri hlið til að fá grillrákir.

Kartöflurnar orðnar vel meyrar. Þær brúnast eiginlega bara á botninum og kannski aðeins á jöðrunum; það er hægt að snúa þeim og brúna á báðum hliðum en það er vesen og ég geri það yfirleitt ekki. En ef þær eru ekki bornar fram í pönnunni gæti verið sniðugt að hvolfa þeim á disk (leggja diskinn yfir pönnuna og snúa báðum i einu þannig að kartöflurnar hvolfist á diskinn).

Kryddsmjörið var akkúrat passlegt; það hefur komið fyrir mig að gleyma því í frysti svo að ég þurfti að láta það þiðna áður en hægt var að skera það. En ekki núna.

Það er mikilvægt að láta kjötið standa í 4-5 mínútur eftir að það er tekið af grillinu. Best að breiða álpappír eða annað yfir það til að halda því heitu og ef maður væri að borða úti og ekkert alltof hlýtt í veðri mætti jafnvel setja samanbrotið viskastykki eða handklæði yfir álpappírinn til að halda hitanum betur á kjötinu.

Ég gleymdi að taka með í reikninginn að kjötsneiðarnar voru svolítið misþykkar og sú þynnri var kannski mínútu lengur á grillinu en ég hefði kosið en það kom reyndar ekki að sök því kjötið var svo vel fitusprengt og safaríkt. – En hér er hægt að sjá hvernig kartöflurnar verða á neðri hliðinni (sneiðarnar til hægri).

Þetta var gott.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s