Ananas-mangó-melónuþeytingur (eða eftir behag)

Enginn kvöldmatur hér á bæ en það er sól og blíða og góður slatti af ávöxtum til í búrinu þannig að þegar mig langaði í eitthvað gott áðan bjó ég mér til þeyting. Ég á reyndar ís í frystinum svo að ég hefði getað búið mér til sjeik þess vegna en ég hef gert það dálítið oft að undanförnu og langaði í eitthvað aðeins léttara. Ég valdi þá ávexti sem mig langaði mest í þessa stundina en það má nota alls konar ávexti og ber í svona þeyting. Hollustan er svona alveg þokkaleg, held ég.

Image

Ég tíndi til það sem ég ætlaði að nota: einn geira af melónu, annan af ferskum ananas, hálft mjög vel þroskað mangó, mandarínu, límónu, hreina jógúrt og vanilluessens (má sleppa. en ég mæli ekkert sérstaklega með vanilludropum í staðinn).

Image

Skar melónuna, ananasinn og mangóið úr hýðinu, flysjaði mandarínuna og skar þetta allt í bita. Límónuna skar ég í tvennt því ég notaði bara helminginn. Ef þetta hefði verið ein af límónunum sem ég keypti í Nóatúni fyrr í vikunni hefði ég bara notað fjórðung því þær voru miklu miklu safaríkari en þessi, sem var úr Bónus. Ég tók frá fáeina ávaxtabita til að skreyta með.

Image

Ég maukaði ananas, mangó, melónu og mandarínur vel í matvinnsluvélinni (eins og ég var búin að segja finnst mér endilega að ég eigi einhversstaðar blandara en ég finn hann ekki, ef einhver er með hann í láni má sá hinn sami alveg láta mig vita), kreisti límónusafann út í og setti svo ögn af vanilluessens saman við. Þessi mæliskeið tekur 1 ml, sem er 1/5 úr teskeið.

Image

Svo þeytti ég um 300 ml af hreinni jógúrt saman við, hellti í glas (skammturinn dugir í tvö stór glös) og skreytti með nokkrum ávaxtabitum. Ávextirnir og jógúrtin voru ísköld en annars hefði ég kannski þeytt svolitlum muldum klaka saman við.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s