Sonurinn er grasekkill þessa dagana, sambýliskonan er reyndar ekki að sveifla sverðum úti í heimi, heldur mundar hún mælingatæki uppi á einhverjum jökli sem ég man ekki nafnið á þessa stundina. Hún er allavega austur í Suðursveit og aumingja drengurinn einn. Hann kann reyndar mætavel að elda oní sig en mér finnst nú ágætt að fá hann í mat. Svo að ég grillaði lambaframhryggjarsneiðar (um 500 g) sem ég keypti í gær.
Byrjaði á að setja olíu (2 msk eða svo) í eldfast fat ásamt nokkrum timjangreinum, reif börk af einni sítrónu yfir, kreisti safa úr hálfri sítrónu saman við, saxaði þrjá hvítlauksgeira smátt og setti út í og kryddaði með pipar og salti.
Velti lambaframhryggssneiðunum upp úr þessu og lét þær liggja í svona hálftíma.
Á meðan hitaði ég grillið. Skar nokkrar meðalstórar kartöflur (ekki bökunarkartöflur) í tvennt, velti þeim upp úr olíu kryddaðri með pipar, salti og kummini, setti þær á grillið með hýðishliðina niður og grillaði þær á lokuðu grilli við meðalhita í 12-15 mínútur. Þá setti ég kjötsneiðarnar á grillið á milli þeirra, hækkaði hitann aðeins undir kjötinu og grillaði áfram á opnu grilli.
Sneri kjötinu eftir 6 mínútur eða svo og þá fyrst sneri ég kartöflunum eftir að hafa penslað þær með afganginum af olíunni. Með því að grilla þær mestallan tímann á hýðishliðinni og snúa þeim bara þegar þær eru alveg að verða meyrar má yfirleitt koma í veg fyrir að þær brenni. Ég grillaði svo kjötið og kartöflurnar í svona 6 mínútur í viðbót.
Á meðan kjötið var á grillinu gerði ég salat – söxuð salatblöð, tómatar, lárpera, vorlaukur, basilíka, hálf mandarína í smábitum graskersfræ, blandað saman við sósu úr ólífuolíu, sítrónusafa, mandarínusafa, ögn af kummini, pipar og salti – og kalda jógúrtsósu (hrein jógúrt, svolítið af svörtu tapenade, söxuð basilíka, nokkrir dropar af hlynsírópi, pipar, salt).
Því miður er ekki hægt að borða úti á svölum en það er allavega hægt að mynda þar …
Sonurinn var nú bara sáttur við matinn held ég. Og svo fékk hann súkkulaðisjeik á eftir (vanilluís, dálítil rjómaskveitta til að þynna, þræláfengt súkkulaðimauk úr krukku sem móðir hans lumaði á).