Það var gefið sólarfrí í vinnunni frá því um kaffi. Og til að nota nú sólarfríið mitt í eitthvað sólartengt eins og til var ætlast, þá fór ég heim og útbjó mér sannkallaðan sumarsjeik.
Ef ég væri á heilsulínunni hefði ég ábyggilega notað sojamjólk og agavesíróp og chia-fræ og hörfræ og kasjúhnetur og whatever. En ég er það nú ekki svo ég notaði Emmess-vanilluís og apríkósusultu og mangó og hindber og basilíku (en það má alveg sleppa henni, bragðið finnst lítið og hún er mest uppá punt).
Ég semsagt skar niður hálft mangó, mjög vel þroskað, og setti í matvinnsluvélina (ég á ekki blandara, eða mig minnir endilega að ég eigi hann en ég finn hann hvergi) ásamt vænum lófa af frosnum hindberjum og nokkrum basilíkublöðum.
Maukaði þetta vel og þeytti svo tveimur vel kúfuðum matskeiðum (eða vænum kúlum) af ís og kúfaðri teskeið af apríkósumarmilaði saman við. Þessi sjeik verður mjög þykkur – það er ágæt æfing fyrir kinnvöðvana að sjúga hann með röri – en það má líka þynna hann svolítið með mjólk.
En mér finnst hann bestur þegar hann er svona þykkur. Namminamm.
Mér finnst ég hafa nýtt sólarfríið mitt ágætlega. (Svo keypti ég líka eina matreiðslubók, viti menn.)
Ohh hvað þetta hljómar mikið betur en agavesírópið og chia fræin!