Kornhænueggin hans Úlfs – á þrjá vegu

Hann Úlfur kom í heimsókn áðan ásamt systur sinni til að borða kornhænueggin sín, sem við keyptum úti í Berlín og tókum með okkur heim. Úlfi þykja kornhænuegg nokkuð góð og sennilega hefði hann nú bara viljað fá þau öll soðin og ekkert vesen. En ég náttúrlega gat ekki séð þau í friði og Úlfur gerðist aðstoðarkokkur. Við ákváðum (eða ókei, ég ákvað) að gera þrjá rétti úr eggjunum.

Átján kornhænuegg í pakka. Harðsoðin á fjórum mínútum, stendur á umbúðunum, og það gerðum við reyndar við tólf þeirra, settum þau í pott, suðum í fjórar mínútur og kældum.

Við rifum niður svona fjórðung af snittubrauði, settum það í matvinnsluvélina og möluðum það í mylsnu.

Tókum helminginn af mylsnunni frá en höfðum hitt áfram í skálinni og bættum söxuðum vorlauk og basilíku, timjani, pipar og salti saman við og létum vélina ganga þangaðtil komin var þessi fína græna mylsna.

Út í hana settum við eitt egg og um 300 g af nautahakki (ég hafði keypt 500 g). Úlfur notaði púlshnappinn á matvinnsluvélinni því við vildum bara rétt blanda hakkinu saman við raspið, ekki breyta því í fars.

Afganginn af hakkinu krydduðum við bara með pipar, salti og basilíku, skiptum því í sex jafna hluta, flysjuðum sex kornhænuegg og hnoðuðum hakki utan um hvert egg um sig.

Image

Og Úlfur velti eggjunum upp úr afganginum af raspinu.

Image

Svo mótuðum við lítil buff úr kryddaða hakkinu og skárum niður eina chorizo-grillpylsu.

vImage

Steiktum borgarana og pylsusneiðarnar í olíu á pönnu. Við settum cheddar-ostsneið á hvern borgara þegar búið var að snúa þeim og steiktum svo sex kornhænuegg á pönnunni.

Um leið hituðum við olíu og djúpsteiktum eggjafylltu bollurnar í 3-4 mínútur. Færðum þær svo upp með gataspaða og létum renna af þeim á eldhúspappír.

Image

Við flysjuðum harðsoðnu eggin sex sem eftir voru, skárum þau í tvennt og settum í skál með chorizo-pylsu og salati.

Image

Skárum niður baguettebrauð og settum kornhænuspælegg og borgara á hverja sneið og skreyttum með dvergbasilíku. Settum eggjafylltu hakkbollurnar í miðjuna á fatinu.

Image

Og þarna eru réttirnir þrír saman á diski: hamborgari með kornhænuspæleggi, skosk kornhænuegg og kornhænueggja- og chorizosalat.

Úlfur var bara nokkuð sáttur.

2 comments

  1. Takk fyrir skemmtileg skrif um mat og flott að fá myndir líka. Mátti Úlfur taka hrá egg með sér í handfarangri? Systir mín ætlaði einu sinni með hænuegg frá Íslandi (ætlaði að koma sér upp „landnámshænum“ í DK) en var bannað það á þeirri forsendu að hrá egg væru vökvi. Þeir hafa víst séð fyrir sér að Ósama og félagar dunduðu við að blása úr eggjum og fylla þau af sprengiefni.

  2. Takk fyrir það. Ég er reyndar ekki viss hvort má taka með hrá egg yfir höfuð, ákvað að spyrja ekki … en þau voru ekki í handfarangri, bara í ferðatöskunni (vafin inn í eitthvað). Ég hefði ekki tekið þau í handfarangri. Þar voru aftur á móti tvö kíló af jarðarberjum sem voru svo safarík að þau hefðu kannski getað talist vökvi …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s