Það er semsagt til fullt af góðu grænmeti síðan í gær og ég á líka súrdeigsbrauð og smér og þetta kallaði nú alltsaman á einhverja góða súpu. Ég er töluvert fyrir matarmiklar súpur, þær eru líka ágætar fyrir einbúa því yfirleitt má hita þær upp daginn eftir eða kæla og frysta í hæfilegum skömmtum ef maður eldar stærri skamt en dugir einni svangri konu í eina máltíð. Sem maður gerir alltaf, eða allavega ég.
Svo ég tíndi til það sem mig langaði að hafa í súpunni. Rauðlauk, vorlauk, sellerí, gulrætur, tómata, spínat, kartöflu, spænska papriku og lárviðarlauf. Allt saman ljómandi gott, vissulega. En það vantaði nú eitthvað. Og ég vissi alveg hvað.
Nema hvað. Þetta er naglasúpa (það má nota alls konar grænmeti í hana) og naglinn heitir beikon. Það er örugglega eitthvað til sem ekki batnar með beikoni þótt ég muni ekki eftir neinu í svipinn (jú, pavlova kannski) en í svona súpu er það alveg ídeal. Svo ég skar niður svona 125 grömm. Hitaði örlitla olíu í þykkbotna potti og lét beikonið krauma þar til það hafði allt tekið lit. Svo saxaði ég einn lítinn rauðlauk (má vera venjulegur) og tvo hvítlauksgeira smátt og lét krauma í 3-4 mínútur. Hellti svo meirihlutanum af feitinni úr pottinum.
Á meðan beikonið og laukurinn kraumaði flysjaði ég eina bökunarkartöflu, snyrti nokkrar litlar gulrætur og tvo sellerístöngla (geymdi laufin) og saxaði þetta allt fremur smátt ásamt 100 g af vel þroskuðum kokkteiltómötum. Setti þetta í pottinn ásamt tveimur lárviðarlaufum og lét krauma í eina eða tvær mínútur.
Svo stráði ég 1 tsk af kummini, 1/2 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti yfir, hrærði og hellti 750 ml af vatni í pottinn. Hitaði að suðu og lét malla við vægan hita undir loki í 15 mínútur.
Á meðan tók ég til 4-5 matskeiðar af ísraelsku kúskúsi (perlukúskúsi; gæti alveg eins verið pasta, hrísgrjón eða bara ekki neitt), hálfa papriku, grænu blöðin af vorlauknum, laufin af selleríinu og væna lúku af spínati. Saxaði grænmetið smátt.
Setti kúskúsið í pottinn ásamt papriku, vorlauk og selleríi og lét malla í 6-8 mínútur. Þá smakkaði ég súpuna, bætti aðeins við pipar og salti, hrærði smátt söxuðu spínati saman við og bar hana inn í boðstofu.
Júbb, þetta var alveg hreint ágætis súpa.




