Heimilið var vita grænmetislaust eftir meira en viku fjarveru svo að ég rölti í Nóatún til að birgja mig upp af grænmeti og fleiru, og kaupa eitthvað í matinn handa mér og syninum sem er grasekkill þessa stundina, tengdadóttirin á leið heim af Evrópumeistaramóti á Ítalíu. (Á heimleiðinni mætti ég drengnum þar sem hann var á gangi með yngstu systur sinni svo það varð úr að hún kom í mat líka.) Þegar ég kom í búðina var það fyrsta sem ég rak augun í þessar ljómandi fallegu litlu næpur (við erum sko ekki að tala um næpur af því tagi sem Baldrekur hefur dálæti á), sem ekki hafa nú verið algengar í búðum hingað til (vonandi breytist það) og fagurgræn fersk lárviðarlauf, og þá vissi ég alveg hvað ég ætlaði að gera – franska lambapottréttinn navarin (næpur heita navets á frönsku).
Kassastelpan vissi auðvitað ekkert hvað næpurnar voru fyrir nokkuð, fann þær ekki í myndalistanum og heldur ekki í stafrófsraðaða listanum þegar ég var búin að segja henni hvað þær hétu, enda sé ég að á kassakvittuninni stendur að ég hafi keypt salathöfuð. Hmmm. Ég keypti svo tvær þykkar og vænar lambalærissneiðar, um 600 grömm – ætlaði upphaflega að kaupa framhrygg en lærissneiðarnar voru mun ódýrari. Skar þær í frekar stóra bita og brúnaði létt í svolítilli olíu. Stillti ofnin á 150°C.
Svo saxaði ég lauk og 2-3 sellerístöngla (geymdi laufin), snyrti 10-12 litlar og fallegar gulrætur (bara skar af þeim bláendana) og skar vel þroskaða konfekttómata í fjórðunga. Og afhýddi 4-5 hvítlauksgeira og skar í sneiðar – þegar ég nota hvítlauk í pottrétti, súpur og annað sem á að malla lengi saxa ég hann yfirleitt ekki eða pressa, heldur sker hann í sneiðar eða bita. Lét lauk og hvítlauk krauma smástund með kjötinu og setti svo gulrætur, sellerí og tómata út í ásamt tveimur lárviðarlaufum, rósmaríngrein og dálitlu þurrkuðu timjani.
Yfirleitt er hvítvín í navarin en ég átti það ekki svo ég notaði þurrt ljóst sérrí – svona 4 matskeiðar. Ég hefði líka getað sleppt því en þá hefði ég kannski sett dálítinn sítrónusafa saman við. Ég hellti því yfir kjötið og grænmetið, lét sjóða 1 mínútu og bætti svo við um 400 ml af heitu vatni.
Ég á ekki lok á þetta fat svo ég breiddi bara álpappírsörk þétt yfir og setti fatið í ofninn og lét það vera óhreyft í klukkutíma.
Þá skar ég aðeins neðan af næpunum (það er engin þörf á að flysja þær þegar þær eru svona litlar og ungar, og ef eru lauf á þeim mega þau bara fara með í pottinn) og skar hverja um sig í 6-8 geira hverja, tók fatið úr ofninum, setti næpurnar út í ásamt sellerílaufinu, breiddi álpappírinn aftur yfir og setti í ofninn í 25-30 mínútur í viðbót.
Á meðan sauð ég bökunarkartöflur (flysjaðar og skornar í bita), stappaði þær svo með smjöri og kryddaði með pipar, salti og saxaðri basilíku.
Og þá var maturinn tilbúinn. Ég þykkti soðið ekki neitt, það má svosem gera það en mér finnst það langbest svona, það blandast svo vel við kartöflustöppuna og svo hefur maður bara gott brauð með til að þurrka upp soðið.
Sæl,
Rakst á þessa uppskrift og var að spá hvaða hitastig er á ofninum ? og hvort að það væri hægt að minnka hana og gera réttin í svonna brassier og hafa lengur í ofninum á lægti hita til að fá fram slow cooker effect ? 🙂
Sæl.
Það er alveg örugglega hægt. Hitastigið er nú ekki nema 150°C (kemur fram undir myndinni af kjötinu) en það má ábyggilega hafa það töluvert lægra, t.d. 110-120°C og láta malla í einhverja klukkutíma.
Og ekkert mál að minnka skammtinn og þess vegna ntoa annað grænmeti.
Kærar þakkir, alveg fór fram hjá mér me hitastigið – ég ætla að prófa um helgina að hafa þá aðeins lægri hitastig og láta malla aðeins lengur (fylla húsið af ilm svona í þessu leiðinlega veðri )