Tvíklúðruð jarðarberjaostakaka

Það eru nokkrir hlutir í heiminum sem ég væri alveg til í að hafa öðruvísi. Til dæmis mundi ég alveg vilja búa í landi þar sem allt fylltist af ferskum, ljúffengum, safaríkum og ódýrum jarðarberjum í sumarbyrjun. Ég gæti svosem flutt til svoleiðis lands en það er aðeins fleira sem spilar inn í … en þegar ég á leið til slíks lands um þetta leyti árs reyni ég að notfæra mér það og taka dálítið af berjum með mér heim. Eins mikið og ég treysti mér til að koma nokkurn veginn ókrömdum til landsins. Sem eru sirka tvö kíló.

Image

Tvö kíló, keypt á Alexanderplatz í Berlín seinnipartinn í gær. Þetta geymist nú ekki lengi og sonurinn og barnabörnin komu í vöpplur, rjóma og jarðarber og þar fór nú drjúgur hluti en svo ákvað ég að baka jarðarberjaostaköku. Mér tókst reyndar að klúðra tveimur grundvallaratriðum í bakstrinum …

Image

Ég stillti ofninn á 175°C og fór að gera botninn. Hann er sirka 150 g af heilhveitikexi (ég er alltaf að tönnlast á því að Haust-kex er ekki hafrakex, það eru nákvæmlega engir hafrar í því, en það hefur verið tilgangslítið hingað til) og 25 g af möndluflögum (má líka sleppa þeim) sem er sett í matvinnsluvél ásamt 80 g af smjöri og vélin látin ganga þar til þetta er orðið að grófri mylsnu. Það mega alveg vera litlir smjörbitar í, gerir ekkert til.

Image

Hellt í form (verður eiginlega að vera smelluform eða lausbotna form) og jafnað. Það á ekkert að þurfa að smyrja formið en ég geri það oftast nær samt.

Image

Þrýst létt niður með fingrunum. Stundum þrýsti ég líka mylsnunni aðeins upp með hliðunum á forminu en gerði það ekki núna.

Image

Klúður númer eitt: ég gleymdi að stilla ofnklukkuna og fór svo að gera annað og beið eftir að ofnklukkan hringdi en það gerði hún náttúrlega ekki svo botninn bakaðist heldur lengi. Hugsa að hann hafi verið í ofninum í 15 mínútur en átti að vera 10. Hann varð heldur dökkur, brann samt ekki að ráði.

Image

Á meðan ég ofbakaði botninn í rólegheitum setti ég um 100 g af jarðarberjum í pott ásamt 2 msk af sykri og 1 af vatni og sauð í nokkrar mínútur …

Image

… og hrærði saman 400 g af mjúkum rjómaosti, 150 g af sykri, 3 egg og 1 tsk af vanilluessens og hellti blöndunni ofan á kexbotninn.

Image

Tók soðnu jarðarberin upp með gataspaða (geymdi safann af þeim), maukaði þau með töfrasprota, dreypti þeim yfir ostablönduna og hrærði í til að mynda munstur. Þetta hefði örugglega orðið rosaflott – en í miðju kafi áttaði ég mig á klúðri númer tvö, það áttu að vera 2 msk af hveiti í ostablöndunni og þeim hafði ég gleymt, svo ég hellti öllu saman aftur í skál, hrærði hveitinu saman við og hellti svo ostablöndunni, sem nú var orðin svolítið bleik, aftur í formið.

Image

Bakaði við 160°C í svona 55 mínútur og lét kólna. Kakan sprakk ögn þegar springformið var losað utan af en það gerir ekkert til því það hverfur allt undir jarðarberin.

Image

Raðaði þýsku jarðarberjunum þétt inn í hringinn. Ég nota mjög gjarna svona hring þegar ég set eitthvað á tertur – hann er stillanlegur og hægt að þrýsta honum vel upp að botninum og láta hann halda utan um. Ekkert nauðsynlegur þarna svosem en mjög hentugur þegar maður er t.d. að setja frómas eða eitthvað slíkt á tertur. Og mjög hentugur þegar þarf að flytja kökur milli húsa, ég tala nú ekki um í strætó … En ég notaði hann aðallega til að hjálpa mér að raða jarðarberjunum.

Image

Svo hitaði ég jarðarberjasafann aftur í potti með 2-3 matskeiðum af góðri jarðarberjasultu og bræddi 1/2 matarlímsblað í blöndunni. Hellti þessu jafnt yfir öll berin og reyndi að láta löginn þekja þau. Þetta er bæði til að festa berin og gefa þeim gljáa.

Image

Ég tók svo hringinn utan af og skreytti tertuna með basilíku. Hún er nú frekar girnileg þrátt fyrir klúðrin.

One comment

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s