Svínakjöt til að hita upp fyrir Berlín

Ég er að fara til Berlínar í nótt svo þetta er síðasta bloggið í bil. Á ekki von á öðru en ég muni borða töluvert af svínakjöti í Berlín svo ég ákvað að kveðja einkasoninn með því að elda oní hann grísalund. Fyllta og með steiktum kartöfluteningum.

Image

Lundin var líklega svona 600 grömm. Ég byrjaði á að snyrta hana og skera af henni himnur (nei, þetta eru ekki sinar, þetta eru himnur).

Image

Skar svo djúpan vasa í hana. Það þarf bara að eiga beittan hníf og passa að skera ekki alveg í gegn.

Image

Hrærði saman svona 100 g af rjómaosti, 1 tsk af söxðu rósmaríni (saxaði heldur meira til að strá utan á), 1 msk af furuhnetum, 1 msk af graskersfræjum, 1 msk af þurrkuðum trönuberjum (af því að ég átti þau til) og kryddaði með pipar og salti.

Image

Svo setti ég fyllinguna í vasann, lagði kjöti saman um fyllinguna og kryddaði að utan með pipar, salti og rósmaríni. Lét opið snúa upp.

Image

Síðan vafði ég beikonsneiðum utan um. Eða af því að þetta var lúxusbeikon, þá lagði ég þær reyndar bara yfir og stakk endunum inn undir kjötið.

Image

Svo hitaði ég ofninn í 220°C, hellti dálítilli olíu í eldfast mót, skar rauðlauk í sneiðar og raðaði í mótið, lagði kjötið ofan á og setti 2 rósmaríngreinar og 2 hvítlauksgeira (heila en aðeins kramda) hjá því. Setti í ofninn og steikti í 25 mínútur eða svo, gleymdi að taka tímann.

Image

Á meðan steikti ég kartöfluteninga. Skar tvær stórar kartöflur í teninga, kannski tæpan sentímetra á kant. Hitaði  slatta af olíu á stórri pönnu og steikti kartöflurnar við góðan hita (best að setja þær ekki allar í einu á pönnuna, heldur lófafylli eða svo í einu og láta líða svona mínútu á milli svo hitinn detti ekki of mikið niður). Ég kryddaði með pipar, Maldonsalti og þurrkuðu timjani. Það er best að hræra oft í kartöflunum.

Image

Ég steikti þær í svona 10-12 mínútur, eða þar til þær voru meyrar og fallega brúnar, dreifði klettasalati á disk og setti kartöflurnar í miðjuna.

Image

Og þá var kjötið einmitt tilbúið á diskinn. Og ég fyrir Berlínarferðina.

One comment

  1. Mikið var ég heppin að rekast á þessa girnilegu uppskrift. Á einmitt grísalund í ísskáp sem ég var að velta fyrir mér hvernig skyldi elda. Alltaf girnilegar og góðar hugmyndir hjá þér, Nanna.
    Bestu þakkir og njóttu Berlínar. Guðrún Agnars

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s