Heslihnetusúkkulaðimauk (eða heimatilbúið Nutella ef út í það fer)

Mér fannst áðan að ég ætti skilið að fá eitthvað gott. Það finnst mér reyndar oft. Of oft, mundu sumir segja. Þá það.

Allavega, ég hugsaði málið og komst að því að mig langaði í vöpplur með Nutella. Nema mig langaði í rauninni ekki í Nutella því mér finnst það gott en of slétt og einhvern veginn smeðjulegt. Svo ég bjó bara til mitt eigið heslihnetusúkkulaðimauk. Dálítið grófara (en samt ekki gróft), betra á bragðið og laust við öll aukaefni. (Kannski er ég samt að hafa Nutella fyrir rangri sök, kannski er voða lítið af svoleiðis í Nutella. Whatever.)

Image

Ég byrjaði á að hita ofninn í 175°C, dreifa 150 g af heslihnetum á bökunarplötu og rista þær í 10-12 mínútur …

Image

… eða þangað til þær voru farnar að dökkna (en ekki brenna) og hýðið byrjað að springa utan af þeim.

Image

Þá hellti ég þeim á viskastykki (ekkert vera að nota besta viskastykkið í skápnum), braut það yfir og hnoðaði hneturnar fram og aftur nokkra stund. (Auðvitað notaði ég báðar hendur við þetta en þarna þurfti ég jú að nota aðra til að taka myndina.)

Image

Við þetta ætti hýðið að fara af hnetunum að mestu. Það gerir ekkert þótt eitthvað sitji eftir en ef allt hýðið er eftir á einhverjum hnetum er ég vön að taka þær frá og hnoða aðeins meira.

Image

Ég helli þeim í sigti til að reyna að losna við sem mest af hýði. Hristi sigtið vel, tek svo hneturnar upp með höndunum og set þær í skál, hendi hýðinu sem eftir situr í sigtinu og endurtek þetta einu sinni eða tvisvar. Þá ætti mestallt hýðið að vera farið. Kæli hneturnar svo.

Image

Svo bræði ég 100 g af mjólkursúkkulaði og 60 g af suðusúkkulaði saman í vatnsbaði; ég nota tvöfaldan pott (bain-marie). Tek af hitanum um leið og allt er bráðið og kæli, þó ekki svo að súkkulaðið storkni.

Image

Mala hneturnar í matvinnsluvélinni í nokkrar mínútur. Þær líta kannski út fyrir að vera frekar grófmalaðar þarna en þær eru býsna fínt malaðar samt.

Image

Set svo í skálina 4 msk af bragðmildri olíu, 2 msk af hunangi, 1 1/2 msk af flórsykri, 1/2 tsk vanilluessens, ögn af salti og auðvitað súkkulaðið.

Image

Hræri allt mjööög vel saman í matvinnsluvélinni.

Image

Set allt saman í krukku og baka vöpplur.

Image

Sem eru nú ekkert verri með jarðarberjum, til dæmis.

Image

En þau eru samt óþörf, þannig séð.

6 comments

  1. Ég ætlaði að fara að spyrja hvað svonalagað myndi geymast vel en áttaði mig síðan á að það væri algjör óþarfi, hér á bæ yrði það klárað áður en hönd á festi. Mun verða prófað. Örugglega gott að hafa líka vanilluís með á vöpplunum, það er allavega standardinn hér með Nutellanu.

  2. Nei, ég held það sé alveg ástæðulaust að hafa áhyggjur af geymsluþolinu … En þetta ætti að geymast í allavega viku utan ísskáps. Geymist ábyggilega vel í ísskáp en mundi líklega harðna þar og gæti þurft að láta standa lengi við stofuhita áður en hægt er að smyrja því.

  3. Ég elska nutella og það væri ekki leiðinlegt að prófa þetta! Er samt nauðsynlegt að taka hýðið af hnetunum?

  4. Mér finnst það, já. Hef reyndar ekki prófað að nota hnetur með hýðinu en það er dálítið beiskjubragð af hýðinu sem líklega mundi skila sér í nutellað. Svo bætir það bragðið af hnetunum að rista þær. Það var einhverntíma (og er kannski enn) hægt að kaupa heilar, afhýddar heslihnetur og ef þú færð þær mundi ég stinga þeim í ofn smástund og rista þær.

    Svo er til önnur aðferð við að ná hýðinu af hnetunum, en þá eru þær soðnar í nokkrar mínútur í vatni blönduðu matarsóda (4 msk af matarsóda í lítra af vatni) og svo hellt í sigti og kalt vatn látið buna á þær. Þá ætti hýðið að renna af þeim flestum eða vera auðvelt að smeygja hnetunum úr hýðinu. En svo þarf að láta þær þorna og rista þær.

    • Takk fyrir þetta, ég nenni yfirleitt ekki að standa í að taka hýðið af hnetum þegar ég nota þær í bakstri en líklega er það betra í svona uppskriftum,

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s