Súpa fyrir svanga konu

Ég kom seint heim og nennti ekki upp í Nóatún (,,nennti ekki“ er orðasamaband sem á eftir að koma oft fyrir á þessari bloggsíðu) og minnti auk þess endilega að ég ætti eitthvað ætilegt í ísskápnum svo ég fór að sinna ýmsum nauðsynjaverkum. Spila tölvuleik og svona. Þegar ég var orðin svöng og ætlaði seint og um síðir að fara að elda komst ég að því að mig misminnti, í ísskápnum var fátt annað en ein og hálf lítil paprika, einn ræfilslegur vorlaukur og botnfylli af tómat-passata í dós.

En það voru kokkteiltómatar og rauðlaukur á eldhúsbekknum, basilíka í vatnsræktargarðinum og ýmsar sortir af dósabaunum í búrskápnum svo ég ákvað að búa mér til fljótgerða súpu.

Image

Byrjaði á að saxa rauðlauk og láta hann krauma í smáolíu í potti við meðalhita í nokkrar mínútur.

Image

Ég saxaði tvo hvítlauksgeira, stráði dálitlu Maldonsalti yfir og pressaði þá með flötu hnífsblaði (auðvitað má nota hvítlaukspressu en ég geri þetta alltaf svona, mér leiðast hvítlaukspressur). Setti hvítlaukinn í pottinn með rauðlauknum.

Image

Svo tíndi ég til grænmetið – paprikur, kokkteiltómata og vorlauk ásamt basilíku – og skar paprikurnar og vorlaukinn smátt, grófsaxaði basilíkuna og skar tómatana í fjórðunga. Setti paprikuna í pottinn og lét hana krauma aðeins með.

Tómatarnir eru dálítið hrukkóttir, það er viljandi. Ég geymi tómata aldrei nokkurntíma í ísskáp, þeir verða miklu bragðmeiri. Þessir höfðu staðið á eldhúsbekknum í minnsta kosti tíu daga. Ég get eiginlega ekki borðað tómata nema þeir séu hárauðir og þroskaðir og met veitingastaði dálítið eftir því hvernig tómata maður fær þar. Ef þeir eru fölir fellur staðurinn niður um flokk hjá mér.

Image

Stráði svo kryddi yfir grænmetið (ein teskeið reykt paprika, hálf teskeið kummin, pipar, salt), hrærði og lét krauma svona mínútu.

Image

Svo setti ég tómatmaukið (passata) út í ásamt 400 ml af vatni eða svo, tómötunum, hvíta hlutanum af vorlauknum og einni dós af kjúklingabaunum. Hellti þeim fyrst í sigti og lét renna af þeim; ég nota yfirleitt ekki vökvann sem er í baunadósum. Hitaði súpuna að suðu og lét hana malla í nokkrar mínútur, þar til hún var aðeins farin að þykkna.

Image

Þá setti ég basilíkuna og grænu blöðin af vorlauknum út í, hrærði og bar súpuna á borðið.

Image

Jú, þetta var alveg bara ágætis súpa. Tilbúin á 10-15 mínútum.

6 comments

  1. Einhver tjáði mér að með því að kreizta hvítlauk í prezzu, yrði hann ‘beizkur’, en með því að zneiða hann og merja yrði hann ‘zædari’, er eitthvað til í þezzu þú matargoð mitt ?

  2. Já, eiginlega. Bragðið verður sterkara ef hann er pressaður; ef hann er saxaður og marinn er það mildara og mér finnst það betra nema í einstöku tilvikum þegar maður vill sterkt og hvasst hvítlauksbragð (og þá bara þegar laukurinn er settur út í rétt í lokin). En þetta fer eftir réttinum og matreiðsluaðferðinni. Aðalástæðan til þess að ég nota ekki hvítlaukspressu er að mér finnst vesen að þrífa þær. Allavega þessar þrjár sem ég á.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s