Margbrotin örlög týnda kjötsins

Ég átti eftir að segja frá týnda kjötinu. Sem var reyndar ekki týnt mjög lengi. Þetta var hlussustór reyktur svínabógur, 4,8 kíló minnir mig, sem var í sunnudagsmatinn fyrir nokkru. Í fjölskyldunni eru sjö manns að meðtalinni ættmóðurinni, sumir allmiklir matmenn og -konur, en það var samt hellingsafgangur sem ég sat ein að. Eitthvað þurfti nú að gera við það, þetta étur sig ekki sjálft og ekki hendi ég mat.

Ég byrjaði á að taka brauðdeig sem ég átti í skál í ísskápnum (ég á oft svoleiðis, geymist dögum saman), fletja út litlar kökur og steikja á pönnu, og það voru varla liðnar tíu mínútur frá því að mér datt þetta í hug þar til ég var sest niður með nýsteikt pönnubrauð með þykkum sneiðum af reyktu svínakjöti.

Svo fór ég norður í nokkra daga og það var þá sem kjötið týndist. Ég kom aftur í bæinn á sunnudagskvöldi og ætlaði að taka bita af kjötinu og gera eitthvað skemmtilegt við hann en þá fannst ekkert kjöt í ísskápnum þrátt fyrir rækilega leit. Ég lét mér detta í hug að sonurinn hefði komið og hirt það, kannski hafði ég hringt í hann og boðið honum það þótt ég myndi það ekki, en þegar ég spurði hann kannaðist hann ekki við neitt. Dularfullt.

Svo fann ég kjötið náttúrlega í frystinum, hafði verið skynsöm aldrei þessu vant og stungið því þangað og steingleymt öllu saman – en þó ekki skynsamari en svo að ég hafði fryst það í einu lagi, sem þýddi að þegar ég tók það úr frystinum fyrir helgi sá ég fram á eintómt reykt svínakjöt næstu dagana og þá er um að gera að nota það á ýmsan hátt.

Image

Í salat (reykt svínakjöt, salatblanda, jalapeño-ostur, perur, nokkur vínber; sósan er heimagert sinnepsmajónes, þynnt með ögn af appelsínusafa).

Image

Í ommelettu (reykt svínakjöt, paprika og vorlaukur látið krauma aðeins í smjöri á pönnu, bitum af jalapeno bætt á pönnuna, slegnum eggjum hellt yfir og hrært, ommelettan brotin saman og rennt yfir á disk).

Það var enn eftir dálítill biti af týnda kjötinu áðan svo ég ákvað að gera litla böku.

Image

Fyrst deigið, ég muldi saman hveiti, smjör og salt með fingurgómunum og bætti við ögn af köldu vatni til að deigið tylldi vel saman.

Image

Flatti deigið út á bökunarpappírsbút, hvolfdi því svo yfir minnsta bökuformið mitt og fjarlægði pappírinn.

Image

Klippti út hring úr pappírnum, setti ofan á deigið og svo farg þar ofan á. Þetta eru sérstakar til þess gerðar leirkúlur en það má líka nota baunir eða hrísgrjón (og hægt að nota það aftur og aftur). Svo er deigskelin bökuð í svona 15 mínútur.

Image

Á meðan er fyllingin útbúin, ég notaði bara það sem ég fann í ísskápnum – kjötið auðvitað, papriku, spergilkál, vorlauk, cheddar-ost, rjómaost og egg. Hrærði rjómaost og egg með svolítilli mjólk, kryddaði, skar allt hitt smátt og setti út í.

Image

Tók bökuformið út og fjarlægði pappírinn og fargið. Botninn er hálfbakaður eins og sést. Svo setti ég fyllinguna í hann.

Image

Bakað í svona 20 mínútur við 200°C.

Image

Fínasti kvöldmatur og nóg í nestið á morgun líka.

Og lýkur þá sögu týnda kjötsins.

2 comments

  1. Engar media noche? 😮 Við gerum stundum svínasteik hér bara til að eiga afgang í svoleiðis, fundum uppskriftina hjá þér fyrir nokkrum árum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s