Ég ætla nú ekkert að koma með bolluuppskriftir núna, hef gert það áður og litlu við það að bæta. Nema jú, það er svolítill sykur í þessum uppskriftum en það má sko alveg sleppa honum … Ég ætla samt að vakna í fyrramálið og baka góðan slatta af bollum, bæði vatnsdeigs- og gerbollum; þó heldur færri en venjulega því að ég býst við að gestirnir í mínu árlega bollukaffi verði með færra móti. Sonurinn, sú öfluga bolluæta (sem á reyndar afmæli í dag) er úti í Cambridge að heimsækja konuna sína, dóttirin að vinna og ég veit ekki hverjir af yngri kynslóðinni láta sjá sig. En það verður allavega til nóg af bollum handa gestum og gangandi.
Ég ætla heldur ekki að vera með fiskuppskrift í þetta skipti þótt ég haldi mínu striki sjálf í fiskátinu; eldaði steikta bleikju með tagliatelle og kúrbíts-rjómasósu handa mér og dótturdótturinni. Sú uppskrift kemur örugglega seinna en ekki núna.
Nei, nú ætla ég að setja hér kjúklingauppskrift sem ég var reyndar með í janúarblaði MAN. Kjúklingur með hrísnúðlum og hnetusmjörssósu. Þetta er uppskrift fyrir fjóra.
Ég byrjaði á að taka bakka af kjúklingalundum, svona 600-700 grömm, og krydda með pipar og salti. Svo hitaði ég 1 msk af olíu á pönnu og steikti kjúklinginn í 3-4 mínútur á hvorri hlið, eða þar til hann var rétt steiktur í gegn.
Þá tók ég hann af pönnunni og skar hann (eða reift) í ræmur.
Á meðan hafði ég soðið núðlurnar í saltvatni í 7 mínútur (eða eftir leiðbeiningum á umbúðum). Ég tók líka 150 g af gulrótum og skar í mjóar ræmur eftir endilöngu.
Ég skar líka nokkra vorlauka og 10-15 cm bút af gúrku í ræmur og blandaði grænmetinu saman í skál.
Þá var það sósan: ég setti 150 ml af hnetusmjöri, 2 msk af sojasósu, 3-4 cm bút af engifer,½ – 1 rautt chilialdin, fræhreinsað, 1 hvítlauksgeira og 3 msk af olíu í matvinnsluvél eða blandara og maukaði vel saman. Þynnti sósuna ögn með köldu vatni.
Ég hellti núðlunum í sigti þegar þær voru soðnar og hvolfdu þeim svo í stóraiskál. Blandaði hnetusmjörssósunni saman við …
… og síðan kjúklingnum og grænmetinu. Setti þetta á fat og stráði kryddjurtum yfir – það vildi svo til að ég átti vætukarsa en það má nota t.d. kóríanderlauf eða steinselju. Eða sleppa bara kryddjurtunum.
Kjúklingasalat með hrísnúðlum og grænmeti
600-700 g kjúklingalundir (eða bringur, skornar í lengjur)
pipar
salt
4 msk olía
175 g hrísnúðlur
150 g gulrætur
3-4 vorlaukar
10-15 cm bútur af gúrku
150 ml hnetusmjör
2 msk sojasósa
3-4 cm bútur af engifer
½ – 1 rautt chilialdin, fræhreinsað
1 hvítlauksgeiri
svolítið vatn ef þarf
vætukarsi, kóríanderlauf eða steinselja