Raspað góðgæti

Ég átti hálft baguettebrauð síðan í gær sem mig langaði eiginlega ekkert í, það var farið að þorna dálítið. En þá var það einmitt upplagt í rasp svo ég ákvað að elda eitthvað í raspi. Og þar sem ég átti kjúklingabringur sem ég hafði eiginlega ætlað að nota í allt annað, sem ég var svo hætt við, þá ákvað ég að elda mér bara parmesankjúkling. Þar er einmitt best að nota ferska brauðmylsnu en ef mig hefði vantað þurra mylsnu hefði ég byrjað á að skera það niður og þurrka það við vægan hita í ofni. Ég geri allt mitt rasp sjálf, held ég hafi ekki keypt rasp í tuttugu og fimm ár að minnsta kosti. Og Paxo-rasp ekki í þrjátíu ár.

Ég skar skorpuna af brauðinu, reif það í litla bita og setti það í matvinnsluvél ásamt slatta af basilíku, nokkrum matskeiðum af nýrifnum parmesan, hálfri teskeið af þurrkuðu timjani, pipar og salti og lét vélina ganga þar til komin var frekar fíngerð mylsna.

Ég setti mylsnuna á disk og tvær eggjahvítur á annan.

Bringurnar þurfa að vera sem þynnstar. Ég byrjaði á að leggja bringu á bretti, setti flatan lófa ofan á og skar svo inn í hliðina á henni með beittum hníf – skar mjög djúpan skurð en þó ekki alveg í gegn.

Þá er hægt að fletta bringunum sundur eins og þegar bók er opnuð. En þær þurfa að vera enn þynnri og ég lagði þær á álpappír (plastfilma er betri en ég átti hana ekki) og braut svo hinn helminginn af álpappírsörkinni yfir.

Svo barði ég þær með kökukefli. Ekki of fast en samt nægilega fast til að fletja þær út og þynna þær. Best er að þykktin sé sem jöfnust.

Þá verða þær svona. Svo hitaði ég dálitla olíu á pönnu.

Dýfði bringunum í eggjahvíturnar, þrýsti þeim vel niður í raspið og dýfði þeim svo aftur í hvíturnar og aftur í raspið.

Svo setti ég bringurnar á pönnuna og steikti þær við meðalhita í svona þrjár mínútur á hvorri hlið (fjórar ef þær eru stórar og þykkar). Steikti nokkra kokkteiltómata með meirihluta tímans.

Vitiði, þetta væri ekki svona gott í Paxo-raspi.

2 comments

  1. Paxo rasp er viðbjóður. Ég geri líka allt mitt rasp sjálf. En hvort notarðu eggjahvítur eða -rauður, þú segir fyrst rauður og svo hvítur?

  2. Myndin sýnir nú nokkuð greinilega hvítur, held ég … Búin að breyta. En utanviðmigheit mín eru greinilega að aukast og var þó ekki á bætandi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s