Svartir bananar, sykurlaus kaka

Ég er frekar nýtin kona og er meinilla við að henda mat. Í vinnunni fáum við ávaxtasendingu í hverri viku og þegar ljóst er að vikuskammturinn ætlar ekki að klárast, eða sumt af ávöxtunum er farið að láta á sjá, tek ég það stundum og bý til eitthvað úr því. Gjarna einhvers konar lummur (nota í það vel þroskaða banana, epli og perur), stundum bragðbættar með kakói, kanil eða vanillu, stundum með hnetum eða öðru góðgæti. Svo tók ég á dögunum vöfflujárn sem ég er hætt að nota og fór með í vinnuna og nú get ég steikt vöpplur líka.Það er lítill ofn á staðnum og ég hef bakað bananabrauð en ég gleymi alltaf að fara með kökuform svo ég geti gert meira – kannski man ég eftir því núna þegar ég er að sortera mig í gegnum allt eldhúsdótið vegna flutninganna sem standa fyrir dyrum. Kannski.

Í dag voru til nokkrir kolsvartir bananar í vinnunni og ég hafði hálfpartinn ætlað að steikja vöpplur til að hafa í hádeginu úti á palli því það var sól. En þá var ákveðið að grilla hamborgara og ég hætti við það og grillaði í staðinn. (Svo fór að rigna en hamborgararnir voru nú ekkert verri fyrir það.)

En bananarnir voru enn til og ég ákvað að taka þá bara með heim, svona ef einhver fengi tiltektaræði á kaffistofunni og þættu bananarnir of svartir (það hefur komið fyrir) og henti þeim. Og bakaði bara úr þeim þegar ég kom heim og fer með kökuna í vinnuna á morgun. Nema endann sem ég át, því þetta er jú sykurlaus kaka.

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 175°C.

_MG_2135

Þessir bananar voru semsagt orðnir svartir að utan, sást varla í ljósan blett, og aldinkjötið var mjúkt, bragðmikið, sætt og ilmandi. En ekki enn farið að breytast í fljótandi form.

_MG_2136

Þetta voru fimm vænir bananar, samtals eitthvað um 600 g (þ.e. án hýðis). Ég flysjaði þá og maukaði svo í matvinnsluvél.

_MG_2138

Svo bætti ég 150 g af hreinni jógúrt, 3 eggjum, 150 ml af matarolíu og 1 tsk af vanilluessens út í og hrærði saman við.

_MG_2142

Svo vigtaði ég 200 g af heilhveiti og 300 g af hveiti (það má nota bara annaðhvort, ég ætlaði að nota eingöngu heilhveiti en átti ekki meira) og blandaði saman við það 3 tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 1/2 tsk af salti og 1 tsk af engiferdufti.

_MG_2143

Hrærði þessu svo saman við blautefnin. Þetta er stór skammtur og þótt matvinnsluvélin mín réði við þetta ákvað ég að hella öllu saman yfir í skál …

_MG_2144

… af því að ég átti nefnilega eftir að blanda rúsínum og hnetum saman við og það er betra að gera það ekki í matvinnsluvél. Ég notaði 100 g af rúsínum, 50 g af grófsöxuðum pekanhnetum og 50 g af grófsöxuðum heslihnetum en það má nota aðra þurrkaða ávexti (smátt skorna) og aðrar hnetur.

_MG_2146

Það má alveg baka þetta í jólakökuformi og þá í lengri tíma og við aðeins lægri hita (160-165°C) en ég setti deigið í pappírsklætt form sem er 28×36 cm og bakaði í u.þ.b. hálftíma á næstneðstu rim.

_MG_2147

Tók svo kökuna út, lét hana kólna aðeins í forminu og hvolfdi henni svo á grind til að kólna alveg.

_MG_2160

Bananakaka með hnetum og rúsínum

600 g mjög vel þroskaðir bananar (vigt án hýðis)

3 egg

150 ml hrein jógúrt

150 ml matarolía

1 tsk vanilluessens

200 g heilhveiti

300 g hveiti (eða 500 g af öðruhvoru)

3 tsk lyftiduft

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk salt

1 tsk engiferduft

100 g rúsínur

100 g hnetur (t.d. pekan- og heslihnetur)

 

175°C í 30-35 mínútur.

 

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s