Gratín í stríðslok

Jæja, vinnutörnin sem ég hef verið í að undanförnu og hefur tekið mestallan tíma minn er búin og ég komin í afslöppun og jólaundirbúning (nei, reyndar ekki, en jólaeldamennsku samt). Vinnan tengdist á engan hátt mat, heldur stóru verki um striðsárin en nú er stríðið búið, kominn friður …

En ég var að vinna í gær (laugardag) og þegar ég kom heim áttaði ég mig á að það var ekki timi til að elda það sem ég hafði ætlað mér, sem var annaðhvort nautabringa (brisket) eða nautaskammrif, sem ég átti hvorttveggja til í ísskápnum en þarf lágmark þrjá tíma í eldamennsku; lengri tíma ef vel á að vera, og ég þurfti aftur í vinnuna eftir kvöldmat svo ekki dugði að fresta bara kvöldmatartímanum þar til kjötið væri klárt. Það eina sem ég átti til að elda fyrir utan þetta langeldaða nautakjöt var saltfiskbiti. Auðvitað hefði verið fljótlegast að sjóða hann bara með kartöflum og öðru grænmeti og það er nú ágætt svosem. En mig langaði samt að gera eitthvað meira og tíminn var nú ekki svo knappur. Og ég uppgötvaði að ég átti eiginlega ekkert grænmeti nema kartöflur og lauk. Svo að ég ákvað að gera saltfiskgratín.

Það er líka hægt að nota nýjan fisk í þetta gratín en þá þarf helst að krydda meira (eða allavega salta).

_MG_9964

Ég byrjaði á að kveikja á ofninum og stilla hann á 210°C. Svo tók ég þessar fáu kartöflur sem ég átti og skar þær í litla teninga. Var ekkert að flysja þær fyrst, fannst það óþarfi. Svo skar ég niður einn lauk og saxaði tvo hvítlauksgeira smátt. Hitaði 1 1/2 msk af olíu á pönnu, setti kartöflur, lauok og hvítlauk á hana og lét krauma við fremur vægan hita þar til kartöflurnar voru farnar að mýkjast – kannski 8-10 mínútur. Hrærði oft á meðan og kryddaði með ögn af pipar.

_MG_9965

Ég setti vatn í annan pott og hitaði að suðu. Skar saltfiskinn í bita (þetta voru svona 350 g), setti út í og lét malla við mjög vægan hita í 5 mínútur. Þá tók ég fiskinn upp með gataspaða og lét hann kólna aðeins.

_MG_9967

Ég bræddi svo 25 g af smjöri í potti, hrærði 2 1/2 msk af hveiti saman við og lét krauma í svona hálfa mínútu og svo hrærði ég 250 ml af mjólk saman við og síðan 200 ml af vatni. Kryddaði með pipar og cayennepipar á hnífsoddi (og e.t.v. örlítið salt en það er best að salta sem minnst út af saltfiskinum). Ég lét sósuna malla í nokkrar mínútur og þá saxaði ég dálítið af basilíku smátt og hrærði saman við (það má líka sleppa basilíkunni).

_MG_9970

Ég átti smábita af fetaosti (svona 50 g) sem ég þurfti að koma í lóg svo að ég muldi hann og hrærði saman við en það má alveg nota einhvern annan ost og þá rifinn. Og að lokum tók ég pottinn af hitanum og hrærði einu eggi saman við sósuna. Hún á að vera frekar þykk en ef hún er of þykk má bæta við svolitlu vatni eða mjólk. Svo er um að gera að smakka hana og bæta við kryddi eftir þörfum.

_MG_9969

Ég hellti svo kartöflunum og lauknum í eldfast mót (best að það sé ekki mjög stórt) og dreifði jafnt úr því á botninn. Roðfletti saltfiskinn, losaði hann í flögur og dreifði þeim yfir.

_MG_9975

Svo hellti ég sósunni jafnt yfir, setti fatið í ofninn og bakaði gratínið í 25 mínútur.

_MG_9985

Eða þangað til jafningurinn var stifnaður og hafði tekið fallegan, brúnan lit.

_MG_9987

Með þessu þarf nú eiginlega ekkert nema gott grænt salat.

*

Saltfiskgratín

300-400 g kartöflur

1 laukur

2 hvítlauksgeirar

1 1/2 msk olia

pipar

360 g saltfiskur

25 g smjör

2 1/2 msk hveiti

250 ml mjólk

200 ml vatn

cayennepipar á hnífsoddi

e.t.v. salt

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

50 g ostur

1 egg

210¨C í 25 mín.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s