Ég er dálítið hrifin af bökum en geri þær reyndar ekki oft, allavega ekki þegar ég er að elda fyrir mig eina – bökur eru ekki þannig matur. Miklu frekar þegar ég er að elda fyrir gesti eða til að fara með eitthvað – á hlaðborð til dæmis, eða til að gæða vinnufélögunum á einhverju … En ég var með bökuþátt í MAN í apríl og á eftir að birta nokkrar uppskriftir úr honum. Hér er ein þeirra.
Smáviðvörun, það eru dálítið margar myndir hér af því að mig langar til að sýna ýmislegt í sambandi við bökubakstur; ef þið þurfið ekki á neinum fróðleik um slíkt að halda má bara hlaupa yfir fyrstu tíu myndirnar eða svo.
Þetta er sveppabaka en það má nota ýmiss konar fyllingar í þennan botn, ósætar eða sætar.
Ég notaði blöndu af 125 g af hveiti og 125 g af heilhveiti en það má nota eingöngu annaðhvort. Blandaði þessu saman við 1/4 tsk af salti í matvinnsluvél. Svo tók ég 125 g af köldu smjöri og skar það í litla bita, setti þá út í og lét vélina ganga þar til komin var fíngerð mylsna.
Svo bætti ég svolitlu ísköldu vatni út í smátt og smátt, þar til auðvelt var að hnoða mylsnuna saman en hún var þó ekki blaut eða klesst. Mótaði deigið í kúlu, pakkaði henni inn í plast og kældi í a.m.k. hálftíma.
Þá kveikti ég á ofninum og stillti hann á 180°C. Tók svo deigið og flatti það út í plötu, nokkru stærri en meðalstórt, lausbotna bökumót (deigið þarf að ná upp fyrir hliðar formsins). Mér finnst best að fletja deigið út á bökunarpappírsörk því þá er einfaldlega hægt að lyfta henni og hvolfa svo deiginu yfir mótið. Ef það loðir við kökukeflið má jafnvel setja aðra bökunarpappírsörk ofan á og fletja það út þannig.
Ég hvolfdi svo deiginu af bökunarpappírsörkinni yfir formið. Þrýsti því létt niður og upp með hliðunum og skar svo umframdeigið burtu. Svo má nota afskurðinn til að bæta göt sem kunna að vera á deiginu eða rifur á köntunum. Það er langbest að nota lausbotna form; auðvitað má nota form með föstum botni líka en þá er mun erfiðara að ná bökunni úr forminu og getur þurft að bera hana fram í því. Sem er svosem alveg í lagi ef formið er fallegt.
Þegar bökur eru gerðar er oft best að byrja á að baka bökuskelina sem fyllingin er sett í „blint“, eins og það er kallað, þ.e. að forbaka hana svo að hún verði ekki hrá eða blaut og renni saman við fyllinguna. Til að skelin haldi lögun í ofninum á meðan er sett farg í hana, þá lyftist botninn ekki eða myndar bólur og kantarnir leka ekki niður. Þess vegna setti ég bökunarpappír yfir deigskelina og lét hann standa vel upp fyrir barmana svo að ég gæti notað hann til að fjarlægja fargið seinna. Það má nota pappírinn sem deigið var flatt út á.
Ég setti svo farg ofan á. Ég á sérstakar þar til gerðar leirkúlur en það má alveg nota þurrkaðar baunir, hrísgrjón eða annað slíkt, ég gerði það í mörg ár; notaði sömu baunirnar/grjónin aftur og aftur og geymdi í krukku á milli.
Ég setti svo formið á neðstu rim í ofninum og bakaði skelina með farginu í 10-12 mínútur, eða þar til kantarnir voru farnir að stífna (stundum þarf aðeins lengri tíma, ef deigið er fremur þykkt). Þá tók ég það út og fjarlægið pappírinn og fargið – mér finnst best að lyfta bara pappírnum með öllu saman.
Botninn var enn svolítið hrár. Stundum er í lagi að setja fyllinguna strax í og baka hana en ef hún er blaut eða ef ekki á að baka fyllinguna er best að baka skelina tóma aðeins lengur, svo að ég setti hana aftur í ofninn og bakaði hana í um 5 mínútur til að þurrka botninn. Svo tók ég hana út aftur og hækkaði um leið hitann í 200°C.
Á meðan bakan var í ofninum hafði ég gert sveppafyllinguna. Ég skar 500 g af sveppum í sneiðar, saxaði 2 litla lauka smátt og 3-4 hvítlauksgeira mjög smátt. Svo hitaði ég 25 g af smjöri og 1 msk af olíu á stórri pönnu og lét laukinn krauma í nokkrar mínútur, þar til hann fór að mýkjast. Þá bætti ég sveppum og hvítlauku á pönnuna, ásamt 1 tsk af þurrkuðu timjani, pipar og salti, og steikti áfram dálitla stund.
Þegar sveppirnir voru farnir að taka lit hellti ég 1 msk af balsamediki yfir, hrærði vel og lét krauma þar til allur vökvi var horfinn.
Þá hrærði ég 200 ml af matreiðslurjóma og 150 g af rjómaosti saman við og lét malla í nokkrar mínútur. Tók þá pönnuna af hitanum, smakkaði og bætti við ögn af pipar og salti.
Svo hellti ég fyllingunni í forbakaða bökuskelina og sléttaði yfirborðið.
Reif síðan svona 30 g af parmesanosti jafnt yfir og setti bökuna í ofninn.
Ég bakaði sveppabökuna í 18−20 mínútur, eða þar til osturinn var orðinn fallega brúnn.
Best er að bera bökuna fram heita eða volga. Þessa böku má hafa sem aðalrétt með góðu salati en hún getur líka verið forréttur eða léttur hádegisréttur eða á hlaðborði.
Sveppabaka
*
Bökuskelin
125 g heilhveiti
125 g hveiti
1/4 tsk salt
125 g smjör, kalt
1−2 msk ískalt vatn
*
Bakað í 10-15 mínútur með fargi og síðan í 5 mínútur án fargs við 180°C.
*
Fyllingin
500 g sveppir
2 laukar, litlir
3−4 hvítlauksgeirar
25 g smjör
1 msk olía
1 tsk timjan, þurrkað
pipar
salt
1 msk balsamedik
200 ml rjómi
150 g rjómaostur
30 g parmesanostur
*
18-20 mínútur við 200°C.
[…] setti hér fyrir fáeinum dögum inn uppskrift að böku þar sem byrjað var á að forbaka bökuskelina blint (þ.e. með fargi til að hún héldi lögun) og þessi er þannig líka. Það er þó eiginlega […]
Sæl ég notast við smjördeig ?
Það ætti alveg að ganga en útkoman verður dálítið öðruvísi. Þá er líklega best að byrja á að forbaka skelina í svona 10 mínútur, taka hana svo út og ýta miðjunni niður, t.d. með sleif eða spaða, setja fyllinguna þar á og setja bökuna svo aftur í ofninn.