Vetrarveður og notalegheit

Eins og áður hefur komið fram er ég ekki sérlega dugleg við að setja inn nýtt efni hér á bloggið á þessum árstíma, fyrst og fremst vegna þess að ég kann ekkert að taka myndir nema við dagsbirtu og er ekki hress með þær sem ég tek við eldhús- eða borðstofulýsinguna. En svo bætist reyndar við önnur ástæða núna, sem er að sonurinn er oft í mat hjá mér – hann er grasekkill því sambýliskonan fór í doktorsnám í Cambridge í haust – og þótt ég dundi mér stundum við að taka myndir af matnum í rólegheitum þegar enginn er að bíða eftir honum nema ég gegnir öðru máli þegar aðrir eru í mat. Þá tek ég yfirleitt í mesta lagi einhverjar myndir í eldhúsinu í fljótheitum; fjölskyldunni þykir mjög kúnstugt ef ég fer að paufast við að taka myndir af diskinum mínum við matarborðið og þau hlæja að mér eins og bestíur.

Ég nýt ekki mikils skilnings á mínu heimili, ónei.

En hér kemur uppskrift frá síðasta sunnudegi, ekta notalegheitamatur sem á sannarlega vel við í kuldunum um þessar mundir, matur sem mallar vel og lengi þar til kjötið eiginlega dettur af beinunum og sósan verður kröftug og bragðmikil – dóttursonurinn lét þess getið að hann borðaði sko aldrei sósu en endaði á að sækja sér skeið fram í eldhús til að borða sósuna eintóma af diskinum sínum. Og hann gerði reyndar kjötinu alveg hreint ágæt skil líka, blessað átvaglið.

Ég hafði semsagt keypt nokkra lambaleggi í matinn. Þetta voru ansi vænir og kjötmiklir leggir, rúm 500 g hver (að meðaltali, alltsvo rúm 2 kg fyrir fjóra leggi) og við vorum sex. Það rétt slapp. Ég gerði ekkert við þá nema skera burt hásinina.

IMG_7028

Ég byrjaði á að hita 1 msk af olíu í mínum ágæta Lodge-steypujárnspotti og brúna leggina vel við góðan hita. Reyndar sá ég að þegar ég færi að brúna hliðarnar á leggjunum þyrfti ég að gera það í tvennu lagi svo þeir kæmust fyrir, svo að ég hitaði aðeins meiri olíu í lokinu af pottinum (sem er flatt og má nota sem pönnu) og brúnaði tvo af leggjunum þar. Hliðarnar alltsvo; þegar skurðflöturinn sneri niður komust leggirnir rétt svo allir fyrir í pottinum.

Ég kryddaði svo leggina með pipar og salti á öllum hliðum og þegar ég var búin að brúna þá vel setti ég þá alla aftur í pottinn og lét þá standa upp á endann.

IMG_7037

Á meðan kjötið brúnaðist hafði ég skorið niður tvo lauka, saxað 3-4 hvítlauksgeira smátt og flysjað 350 g af gulrótum og skorið í bita. Setti þetta allt í pottinn með kjötinu og lét krauma aðeins og svo hellti ég 400 ml af vatni og 500 ml af tómat-passata (þunnt tómatmauk, fæst í fernum og krukkum) út í. Bætti við 2 msk af balsamediki, 2-3 rósmaríngreinum og nokkrum lárviðarlaufum.

Hitaði að suðu, setti lokið á p0ttinn og lét þetta svo malla við mjög vægan hita í um 2 1/2 klst. Tók reyndar lokið af síðasta hálftímann og hækkaði hitann dálítið til að láta soðið sjóða aðeins niður.

IMG_7042

Mig langaði að hafa einhvers konar pasta með þessu og datt í hug að prófa makkarónugratín. Eða makkarónur með osti en þó ekki miklum, ekki alveg mac’n’cheese kannski … Ég hitaði ofninn í 200°C og sauð svona 250 g af makkarónum í léttsöltuðu vatni í 8 mínútur. Hellti þeim í sigti og lét renna af þeim og setti þær svo í léttsmurt form. Reif 100 g af bragðmiklum osti (ég var með Tind) og setti út í og svo hellti ég 250 ml af rjóma í hristiglas, bætti við 1 1/2 msk af hveiti, dálitlum pipar og salti, hristi vel saman og hellti svo yfir og blandaði.

IMG_7043

Ég átti nokkur basilíkublöð sem ég saxaði og blandaði saman við og slétti yfirborðið dálítið. En það má alveg sleppa basilíkunni ef maður á hana ekki og svo mætti líka blanda t.d. smátt skornu, stökksteiktu beikoni saman við.

IMG_7045

Svo stráði ég 4 msk af þurri brauðmylsnu (Panko, já, ég veit, ég er dálítið hrifin af henni) jafnt yfir og setti svo makkarónugratínið í ofninn í 20-25 mínútur, eða þar til brauðmylsnan var byrjuð að taka lit.

IMG_7039

Þegar mér fannst kjötið tilbúið (og makkarónurnar áttu eftir svona 10 mínútur í ofninum) tók ég það upp úr pottinum – það var farið að losna töluvert frá beinunum og var orðið mjög meyrt – og hélt því heitu. Tíndi lárviðarlaufin og rósmaríngreinarnar upp úr (ef maður vill má taka gulræturnar upp með gataspaða og sía soðið áður en sósan er gerð en ég lét það eiga sig). Setti kalt vatn og 2 msk af hveiti í hristiglas og hristi saman og hrærði svo saman við sósuna til að þykkja hana dálítið. Lét malla í 5-8 mínútur, smakkaði og bragðbætti með pipar og salti.

IMG_7047

Ég hafði líka gert kartöflustöppu (en það er kannski óþarfi að hafa bæði kartöflur og makkarónugratín með, kom samt ágætlega út) og setti hana á fat með kjötinu en bar sósuna fram sér í skál.

IMG_7051

Og svo auðvitað makkarónugratínið. Jú, þetta fór alveg ágætlega saman. Og afgangurinn af makkarónugratíninu var alveg ágætis nesti daginn eftir (það var hins vegar ekki arða eftir af kjötinu, mitt fólk  var svangt).

Lambaleggir í tómatsósu með makkarónugratíni

4 lambaleggir (2 kg)

2 msk olía

pipar

salt

2 laukar

3-4 hvítlauksgeirar

350 g gulrætur

400 ml vatn

500 ml tómat-passata

2 msk balsamedik

2-3 rósmaríngreinar

3-4 lárviðarlauf

2 msk hveiti til þykkingar

Makkarónugratín

250 g makkarónur

salt

1-2 msk smjör í formið

100 g bragðmikill ostur, rifinn

250 ml rjómi (eða mjólk)

1 1/2 msk hveiti

pipar

nokkur basilíkublöð (má sleppa)

3-4 msk rasp (gjarna panko)

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s