Skankar í rigningu

Ég var með börn, tengdabörn og barnabörn í kvöldmat áðan og þess vegna er uppskrift dagsins ekki fyrir einn eða tvo, heldur fyrir sjö, þar af nokkur átvögl. Nánar til tekið sex átvögl og eina unglingsstúlku, sem þó er allt í einu farin að borða mun meira en hún er vön þar sem hún er farin að æfa crossfit og keppti á sínu fyrsta móti í dag.

Ég var í Nóatúni í hádeginu, skimaði yfir kjötborðið og sá aldrei þessu vant ekkert sem freistaði mín neitt sérstaklega. Nema þarna var neðri hluti af lambalæri og allt í einu vissi ég hvað mig langaði í; spurði um lambaleggi/skanka og jújú, þeir voru til á bak við. (Í Nóatúni er þetta kallað grillleggir, sem ég hef aldrei skilið því þetta er ekki beint það kjöt sem hentar best á grillið; né er grillsteiking besta matreiðsluaðferðin fyrir skankana, langt í frá.) En allavega, ég keypti sjö stykki, ætli þetta hafi ekki verið rúmlega tvö og hálft kíló í allt.

Oftast læt ég lambaskanka malla í svona tvo og hálfan tíma en af því að ég var að gera ýmislegt annað í eldhúsinu hentaði það mér að byrja matreiðsluna um fjögurleytið, láta þá malla í hálfan annan tíma, slökkva svo undir þeim og láta standa en hita svo aftur upp og þykkja sósuna svona tíu – fimmtán mínútum áður en þeir voru bornir fram. Það kom mjög vel út og þeir voru einstaklega meyrir, alveg eins og þeir eiga að vera.

IMG_1638

Ég byrjaði á að snyrta skankana aðeins með því að skera burt hásinina.

IMG_1636

Svo blandaði ég saman 4 msk af hveiti, slatta af pipar og salti og velta skönkunum upp úr því – eða ég setti skurðflötinn í hveitið og jós svo hveiti yfir hitt með skeið. Hveitið sem eftir var þegar þetta var búið geymdi ég svo og notaði til að þykkja sósuna.

IMG_1647

Ég hitaði fjórar matskeiðar af ólífuolíu í víðum, þykkbotna potti (má líka nota pönnu en þá þarf að færa skankana yfir í stóran pott þegar búið er að brúna þá) og brúnaði skankana við góðan hita. Ég byrjaði á að brúna skurðflötinn og hafði þá alla sjö skankana í einu en þegar þurfti að leggja þá út af til að brúna hliðarnar var ekki pláss fyrir alla svo að ég tók þrjá upp úr og geymdi þá á meðan ég brúnaði hina; svo brúnaði ég seinni skammtinn en tók svo alla upp úr og lækkaði hitann.

IMG_1655

Ég var búin að grófsaxa tvo lauka og pressa fjóra eða fimm hvítlauksgeira og lét þá krauma í olíunni við meðalhita í nokkrar mínútur.

IMG_1664

Setti svo skankana aftur út í, ásamt svona fimm gulrótum, flysjuðum og skornum í bita, tveimur sellerístönglum í bitum, þremur rósmaríngreinum, þremur lárviðarlaufum, pipar og salti.

IMG_1674

Svo hellti ég 300 ml af tómatpassata yfir (mætti líka nota 1 dós af söxuðum tómötum) ásamt svona 7-800 ml af vatni. Það þarf alls ekki að fljóta yfir skankana. Setti lok á pottinn, hitaði að suðu og lét malla við hægan hita í svona einn og hálfan tíma. Sneri skönkunum einu sinni eða tvisvar en lét þá annars eiga sig.

IMG_1743

Svo slökkti ég undir pottinum og lét réttinn standa í lokuðum potti í svona hálfan annan tíma en þá hitaði ég hann aftur og jafnaði sósuna með afganginum af hveitinu (má líka bæta við ef það er ekki nóg).

IMG_1690

Á meðan skankarnir biðu útbjó ég grænmetið sem ég ætlaði að hafa með; hitaði ofninn í 200°C og flysjaði og snyrti eina væna sæta kartöflu, hálfan stóran butternut-kúrbít og þrjár nípur. Var líka með þrjár bökunarkartöflur en flysjaði þær ekki, skar þær bara í frekar þunna geira (16 geira hverja kartöflu). Nípurnar skar ég í fjórðunga eftir endilöngu og sætu kartöfluna og kúrbítinn í svona 1-1 1/2 cm þykkar sneiðar og svo í bita.

Ég setti þetta allt í eldfast fat, hellti yfir 2-3 msk af ólífuolíu og kryddaði með pipar, salti og svona teskeið af þurrkuðu óreganói og velti grænmetinu upp úr olíunni.

IMG_1746

Svo bakaði ég það allt í ofninum í 35-40 mínútur, eða þar til það var allt vel meyrt og farið að taka lit.

IMG_1776

Góður matur og á alveg einstaklega vel við í svona veðri. Fjölskyldan át á sig gat en þar sem ég var með þríréttað var svolítill afgangur. Það verður nú ekki verra upphitað.

Auglýsingar

3 athugasemdir Bæta þinni við

 1. Hildigunnur skrifar:

  Komið á lista. Hljómar voðalega vel. Ég geri skanka yfirleitt alltaf eftir uppskrift frá honum Huga Þórðar en það má nú vel breyta til 🙂

  1. nannarognvaldar skrifar:

   Það má endalaust breyta til, skankarnir verða alltaf góðir ef þeir eru látnir malla nógu lengi svo kollagenið í bandvefnum nái að leysast upp.

 2. Jóhanna st.Guðmundsdóttir skrifar:

  Nammi namm, eins er æði að búa til Ozzzo boko ur skönkum, er við hér í keflavík erum ekki svo heppin Nanna mín að vera með kjötborð ,nei og þrátt fyrir að það séu hátt í 20þús manns á svæðinu, þetta er náttúrulega til háborinnar skammar í svona stóru bæjarfélagi ,en hvað um það ,þessi uppskrift þín er yndisleg ,og ég fann næstum bragðið af að lesa hana ,kveðja frá aðdáenda

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out / Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out / Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out / Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out / Breyta )

Tengist við %s