Bragðmikill bógur

Kunningi minn spurði mig einhverntíma (og reyndar er þetta spurning sem ég hef oft fengið) hvernig gæti staðið á því að sósan sem hann gerði af lambasteikinni yrði aldrei nándarnærri eins góð og sósan hjá mömmu hans. Alveg sama þótt hann hefði fylgst með henni gera hana, skrifað allt niður og gerði allt nákvæmlega eins.

– Já, sagði ég, – en steikirðu lambalærið eða hrygginn alveg eins og hún?

– Nei, reyndar ekki, sagði hann. – Ég vil nú hafa lambakjötið mun minna steikt en hún, hún steikir kjötið alltaf alveg í gegn og það verður þurrt og bragðið nýtur sín ekki.

– Þar hefurðu skýringuna á sósunni, sagði ég. – Safinn úr kjötinu fer allur í steikarskúffuna og með honum krafturinn og bragðið. Þess vegna er sósan svona góð.

Það er nú svosem alveg hægt að finna einhvern meðalveg, sem gefur þokkalega sósu án þess að allur safi hverfi úr kjötinu, og svo er hægt að nota ýmis hjálparmeðöl til að bæta krafti og bragði í sósuna ef maður vill að kjötið haldi sem mestu af safanum. Svo er  má líka fara allt aðra leið; hér er lambabógur, gegnsteiktur en þó alveg ágætlega safaríkur og þótt kjötsafinn sem rennur úr bógnum fari í sjálfu sér allur í sósuna er hann aukaatriði þar; undirtónn fremur en aðalatriði.

Ég áttaði mig á því á dögunum að það er orðið langt síðan ég hef sett inn uppskrift að lambakjöti (hangikjöt þó frátalið). Það gengur náttúrlega ekki, ég sem er komin af skagfirskum sauðfjárbændum í þrjátíu ættliði, svo að ég hyggst bæta eitthvað úr því á næstunni.

IMG_0911

Ég átti von á fólki í mat en svo forfallaðist það; þá var ég byrjuð á eldamennskunni og ákvað að steikja bara bóginn handa mér einni. Afgangar fara í frysti eða verða nýttir í eitthvað skemmtilegt næstu dagana …

Þetta er semsagt bógur frá KS, keyptur í Bónus fyrr í vikunni og látinn þiðna í ísskápnum í rólegheitum. Svona 1,6 kíló minnir mig. Annað sem ég notaði var einn laukur, fjórar gulrætur, þrjú lárviðarlauf (fersk, en það má nota þurrkuð – eða einhverjar aðrar kryddjurtir), tveir sellerístönglar, einn heill hvítlaukur, ein dós saxaðir tómatar, 250 ml rauðvín (en það má nota vatn og kjötkraft ásamt kannski smáskvettu af rauðvínsediki), 1 tsk þurrkað timjan, pipar og salt. Og ögn af olíu.

IMG_0917

Ég stillti ofninn á 140°C, hellti svolítilli olíu (1-2 msk) í stórt eldfast mót (eða ofnskúffu), velti bógnum upp úr olíunni, kryddaði  með timjani, pipar og salti og setti hann í fatið. Skar gulrætur, sellerí og lauk niður og dreifði í kring ásamt lárviðarlaufum og afhýddum en heilum hvítlauksgeirum og kryddaði með ögn af pipar, salti og timjani.

IMG_0923

Svo hellti ég tómötunum og víninu yfir grænmetið, breiddi álpappír lauslega yfir og setti þetta í ofninn í svona klukkutíma og 45 mínútur.

IMG_1012

Þá hækkaði ég hitann í 220°C, fjarlægði álpappírinn og steikti bóginn í 25-30 mínútur í viðbót, eða þar til hann hafði tekið fallegan lit. Tók bóginn svo út, setti hann á fat og lét hann standa í svona 10 mínútur. – Það er reyndar líka alveg hægt að bera þetta fram svona og hafa grænmetið eins og það er.

IMG_1025

Ég fjarlægði lárviðarlaufin en hellti öllu hinu úr fatinu í matvinnsluvélina og maukaði gróft. Smakkaði, kryddaði aðeins og hellti maukinu svo í sósukönnu og bar fram með bógnum.

IMG_1013

Nei, ég borða þetta nú ekki allt ein … en nógu fannst mér það girnilegt.

IMG_1033

Gegnsteikt en safaríkt. Eitthvað sem ég gæti vel boðið pabba gamla (veit samt ekki hvernig hann kynni að meta sósuna). Og alveg ljómandi hreint gott. Sósan bragðmikil og góð og þrátt fyrir heilan hvítlauk var hvítlauksbragðið alls ekki yfirgnæfandi, langt frá því.

Lambabógur í tómatmauki

1 lambabógur

1-2 msk ólífuolía

1 tsk timjan, þurrkað

pipar

salt

4 gulrætur (litlar)

2 sellerístönglar

1 laukur

1 hvítlaukur

3 lárviðarlauf

1 dós saxaðir tómatar

250 ml rauðvín

6 comments

  1. Mér finnst bógurinn yfirleitt betri en læri – en jafnvel læri finnast mér betri gegnsteikt við mjög hægan hita heldur en bleik inn við bein. Kjötið er hreinlega ekki alveg nógu gott til þess. Hryggur er hins vegar allt annað mál, hann er frábær medium rare.

  2. Bógurinn er bragðmeiri, engin spurning. Mér finnst reyndar læri sem er ljósbleikt alveg í gegn mjög gott ef það er almennilega gert (en hækillinn er auðvitað alltaf bestur langsteiktur). En sjö tíma læri er nú ansi gott líka.

  3. Hækillinn er náttúrlega bestur! (já langsteiktur) Við bóndinn sláumst um hann. Já reyndar, það þarf að vera mjög vel gert og jafnt ef kjötið á ekki að vera hálfkalt og óspennandi inn við bein. Maður hefur of oft fengið svoleiðis, líka hjá fólki sem á að kunna betur til verka.

    • Ég geri þetta stundum þannig að ég hálfsteiki lærið, tek það svo út, breiði yfir það og læt það standa í svona klukkutíma. Set það svo aftur í ofninn. Þá dreifist hitinn mjög jafnt um það og steikingin verður jöfn og fín.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s