Síðustu (aðal)bláber sumarsins

Ég átti til ögn af aðalbláberjum sem ég þurfti endilega að nýta eitthvað. Síðustu ber sumarsins, örugglega.

Auðvitað hefði kannski legið næst við að nota þau í múffur en ég bakaði nú 72 múffur í gær og einhvernveginn var ekki alveg í múffuskapi í dag. En ég var alveg í skapi fyrir bláberjalummur. Og ég átti einmitt allt sem þurfti í slíkar – eða gat reddað mér með annað ef ég átti það ekki.

Reddingarnar komu reyndar inn í dæmið strax í upphafi, ég ætlaði að nota 250 ml af hreinni jógúrt en það reyndist ekki vera nema svo sem helmingur af því í fernunni. Ég var að hugsa um að fylla bara upp með mjólk (og það hefði verið í fínu lagi) en svo mundi ég að ég átti rjóma sem var kominn aðeins fram yfir síðasta söludag og notaði hann frekar. Hellti svo jógúrt-rjómablöndunni í skál, braut eitt egg út í og sló þetta saman.

Ég kreisti safa úr hálfri límónu út í (á að giska 2 tsk) en það var nú aðallega af því að ég átti eftir múffubaksturinn í gær 2-3 límónur sem ég var búin að rífa börkinn af og þurfti að nota. Mér finnst límónubragðið passa vel við bláber. En ég hefði alveg eins getað notað sítrónusafa eða vanilluessens, hvorttveggja passar líka vel við bláber. Reyndar er ansi margt sem passar vel við bláber …

Svo vigtaði ég 125 g af hveiti og blandaði 1 tsk af lyftidufti, 1/4 tsk af matarsóda, 1 1/2 msk af sykri og örlitlu salti saman við og hellti þessu svo yfir jógúrtblönduna. Síðan hrærði ég, bara eins lítið og mögulegt var til að þetta rétt blandaðist saman. Blandan á alls ekki að vera kekkjalaus; því minna sem er hrært, þeim mun léttari verða lummurnar.

Ég bræddi 2 msk af smjöri á pönnu, hellti því mestöllu í skálina með deigsoppunni og hrærði lauslega. Svo setti ég lummur á pönnuna með lítilli ausu og steikti við fremur vægan hita – hér verður hver að finna út sjálfur hvaða hitastilling hentar, það er svo margt sem getur haft áhrif, eldavélin, gerð pönnunnar og fleira.

En bíddu, hugsar nú kannski einhver, gleymdist ekki eitthvað? Áttu þetta ekki að vera bláberjalummur?

Jújú. en ég set ekki aðalbláberin fyrr en lummurnar eru komnar á pönnuna og dreifi þeim þá yfir. Þannig verður steikingin auðveldari, safi úr berjunum rennur ekki út á pönnuna og truflar hana og svo verður dreifingin á berjunum jafnari.

Svo steiki ég lummurnar við hægan og jafnan hita þar til yfirborðið fer að hætta að vera gljáandi og loftbólur fara að myndast. Það er merki um að lummurnar séu að verða steiktar í gegn. Þá sný ég þeim og steiki andartak á hinni hliðinni og stafla þeim svo á disk. Set hálfa teskeið af smjöri eða svo á pönnuna og steiki næsta skammt. Þetta gætu orðið svona 7-10 lummur, eftir því hvað þær eru hafðar stórar.

Svo er bara að hella dálitlu hlynsírópi yfir (eða t.d. sigta flórsykur yfir staflann) og bera lummurnar fram með meira hlynsírópi.

Alveg óþarfi að vera að spara hlynsírópið (en hrásykur væri nú ágætur líka, eða þá bara venjulegur strásykur).

Þetta var nú alveg ágætis meðferð á síðustu aðalbláberjum sumarsins, þótti mér.

Auglýsingar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s